Málflutningskeppni Lögréttu í samstarfi við

  • Fyrir hönd stefnanda, Björn Bæringsson:
    • Bogi Agnar Gunnarsson
    • Halldór Ingi Blöndal
    • Kristinn Ásgeir Gylfason

Þeim til aðstoðar er Gunnar Sturluson hrl. hjá LOGOS.

  • Fyrir hönd stefnda, Júlíus Þór Valsson:
    • Alexandra Arnarsdóttir
    • Ásta Margrét Eiríksdóttir
    • Harpa Erlendsdóttir

Þeim til aðstoðar er Heiðar Ásberg Atlason hrl. hjá LOGOS.

KEPPNIN:

  • Atvikalýsing lögð fram föstudaginn 29. janúar kl. 12:00
  • Þingfesting: föstudaginn 5. febrúar kl. 12:00
  • Greinagerð skilað: föstudaginn 12. febrúar kl. 12:00
  • Aðalmeðferð: föstudaginn 19. febrúar kl. 17:30
  • Dómsuppsaga: fimmtudaginn 25. febrúar

STAÐSETNING: dómþing Héraðsdóms Háskólans í Reykjavík, stofa M103

DÓMARAR:

  • Ingveldur Einarsdóttir hæstaréttardómari
  • Sigurður Tómas Magnússon prófessor við lagadeild HR og fyrrverandi héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur
  • Þórður S. Gunnarsson héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, fyrrverandi forseti lagadeildar HR og fyrsti heiðursfélagi Lögréttu

Málavaxtalýsing var birt föstudaginn 29. janúar sl.:

Hér á eftir fer málsatvikalýsing sem til umfjöllunar er í málflutningskeppni Lögréttu 2016. Vinsamlegast gerir ráð fyrir að það sem lýst er sé óumdeilt og sannað.

Júlíus Þór Valsson er 27 ára garðbæingur sem ekur um á Hyundai Coupe. Hann er mjög sáttur með lífið enda nýlega byrjaður með tískubloggaranum Jónu Dís. Hann vinnur sem sölumaður hjá sportvöruversluninni BUFF, Fákafeni 11.

Júlíus Þór vann nýlega keppnina, The Biggest Man on Earth, sem haldin er árlega í Los Angeles. Hann varð þar með fyrstur Íslendinga til að ná árangri í stórri erlendri vaxtaræktarkeppni. Síðan Júlíus Þór vann keppnina hefur hann notið mikillar athygli, bæði frá fjölmiðlum hérlendis og erlendis.

Tæpu ári fyrir keppnina ákvað Júlíus Þór að stofna Facebook aðganginn “July Thor” til að safna í kringum sig góðum fylgjendahópi. Hann ákvað að hafa aðganginn lokaðan svo sem flestir myndu senda honum vinabeiðni. Í dag er hann með 75.307 vini á Facebook, jafnt hér á landi sem erlendis, og er mjög duglegur að leyfa aðdáendum sínum að fylgjast með sínu daglega lífi.

Júlíus Þór skrifaði undir samning við Bjössa „Buffet” Bæringsson, eiganda BUFF, 12. janúar síðastliðinn. Samningurinn kveður á um að Bjössi selji boli, sem Júlíus Þór hannar og lætur framleiða fyrir sig, í sportvöruversluninni Fákafeni 11. Júlíus Þór er rosalega spenntur fyrir að byggja ímynd sína enn meira upp og fór strax að skrifa niður tilvitnanir til að láta prenta á bolina. Daginn eftir hafði hann samband við norskt fyrirtæki og pantaði 100.000 boli með sinni uppáhalds tilvitnun, sem er „My warmup is your workout“. Bolirnir verða sendir til landsins 23. janúar og er gjalddagi reikningsins fyrir bolina þann sama dag, að fjárhæð 1.340.000 norskar krónur.

Þrátt fyrir að Júlíus Þór elski að vinna hjá BUFF þá hefur Bjössi „Buffet”  ekki alltaf verið kátur með frammistöðu Júlíusar í vinnu. Hann hefur veitt honum fjölda áminninga fyrir óstundvísi og gefið honum tilmæli um að vera þjónustuliprari og kurteisari gagnvart viðskiptavinum sportvöruverslunarinnar.

Við fyrstu sýn fer ekki milli mála að Júlíus Þór notar stera. Steranotkunin fer mikið í skapið á honum og hann á það til að missa stjórn á sér. Til þess að vinna á skapsveiflunum fer Júlíus Þór í ræktina a.m.k. þrisvar sinnum á dag en hann finnur að það hjálpar við að minnka skapsveiflurnar.

Föstudaginn 22. janúar mætti Júlíus til vinnu klukkan 10:10 eins og vanalega. Hann var að raða prótein dunkum þegar Sigurður kunningi hans úr Garðaskóla kom inn í búðina til að kaupa sér orkustangir. Sigurður hafði alltaf farið í taugarnar á Júlíusi, enda var hann aðal töffarinn í grunnskóla. Hann var langbestur í bekknum í fótbolta og allar stelpurnar voru skotnar í honum.

Júlíus fann hvernig gamla óöryggið blossaði upp um leið og hann sá Sigurð. Hann náði þó að rétta úr sér og bjóða Sigurði góðan daginn. Sigurður leit þá upp og sagði „Nei sko, er þetta ekki Júlli feiti! Hvað er að frétta maður?“ Júlíus, sem hafði alltaf verið kallaður Júlli feiti af Sigga og félögum hans í grunnskóla, snöggreiddist og kýldi Sigurð í andlitið.

Í sömu andrá og Júlíus kýldi Sigurð kom Bjössi „Buffet” inn í búðina. Hann skipaði Júlíusi að fara út úr búðinni og fór að hlúa að ringluðum Sigurði. Eftir að Bjössi var búinn að gefa Sigurði mikið magn af vörum og biðja hann afsökunar margoft féllst Sigurður á að gera ekki mál úr þessu atviki.

Júlíus var í miklu uppnámi eftir atvikið. Um leið og hann kom út í bíl opnaði hann Snapchat aðganginn, sem hann hafði nýlega búið til fyrir aðdáendur sína, og sagði orðrétt við fylgjendur sína: „BUFF er fokking þvottastöð, allt sem þú sérð í búðinni er drasl, sem er bara selt til þeirra sem vita egg í hausinn á sér, alvöru stöffið er selt undir borðið, ef þið vitið hvað ég á við!“. Þar sem hann á svipað marga vini á snapchat og Facebook nennti Júlíus ekki að senda skilaboðin til allra og valdi frekar að deila þeim í „story“. Því næst fór Júlíus á Facebook og skrifaði eftirfarandi stöðufærslu: „Ég hata BUFF-IÐ, þessi dópsali á skilið að fara í steininn! Það er bara þannig!“.

Næsta dag var reiðin runnin af Júlíusi. Hann mætti til vinnu en varð mjög brugðið þegar hann sá reiðisvipinn á Bjössa „Buffet”. Hann hafði gert fastlega ráð fyrir að Bjössi myndi fyrirgefa honum fyrir atvik föstudagsins, líkt og venjulega, en Bjössi var öskuillur. Hann sagði Júlíusi að hann mætti aldrei framar stíga fæti inn í verslunina. Hann væri búin að tala við Natan Óskarz stjörnulögfræðing sem myndi senda honum stefnu vegna ærumeiðinga hans á samfélagsmiðlum í næstu viku.

Bjössi „Buffet” sagði Júlíusi jafnframt að hann gæti gleymt því að bolirnir yrðu seldir í BUFF. Það myndi enginn kaupa boli með tilvitnunum eftir svona trúð. Lögfræðingurinn hefði sagt honum að  greiða Júlíusi hvorki laun fyrir janúar né laun í uppsagnarfresti því þessar fjárhæðir myndu jafnast út á móti skaðabótunum, sem yrðu miklu hærri en launakrafa Júlíusar.

Júlíus Þór hélt heim á leið gjörsamlega ónýtur yfir því að líf hans væri ónýtt. Hann fékk lífsviljann þó fljótlega aftur þegar hann áttaði sig á því að Svala kærasta vinar hans er þekkt í lögfræðibransanum fyrir að vera grjóthörð og vinna öll svona mál. Hún myndi redda honum út úr þessari klípu!

Stefnuhópur gætir hagsmuna Bjössa „Buffet“ í málinu. Bjössi hefur óskað eftir því að þið gerið ýtrustu kröfur á hendur Júlíusi.

Greinargerðarhópur gætir ýtrustu hagsmuna Júlíusar í málinu gegn Bjössa.